Sala á nýjum fasteignum í desember í Bandaríkjunum lækkaði um 10% frá desember í fyrra en það er mesta tólf mánaða lækkun í 37 ár. Í Vegvísi Landsbankans segir að fjöldi seldra nýrra fasteigna í desember hafi einungis verið 604.000 og þarf að leita allt aftur til febrúar árið 1995 til að sjá samskonar fjölda. Meðalverð nýrra fasteigna hefur einnig lækkað og ef litið er til desember 2006 hefur það lækkað um rúm 10%.

Mikill samdráttur hefur verið undanfarið á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum m.a. vegna þess að þrengst hefur á lánamarkaði og því orðið erfiðara en áður að nálgast lánsfé til að fjármagna húsnæðiskaup samkvæmt því sem segir í Vegvísinum.