Í nýju verðmati Greiningardeildar Landsbankans á Actavis, sem út kom í á þriðjudag, er m.a fjallað um þróun samheitalyfjamarkaðarins. Alþjóðlega markaðsrannsóknarfyrirtækið Datamonitor áætlar að vöxtur samheitalyfjamarkaðarins hafi numið 12,8% á heimsvísu á milli áranna 2002 og 2003 og verði ríflega 11% að jafnaði fram til ársins 2008. Verðmæti markaðarins var talið um $35,4 milljarðar á árinu 2003 og var sá bandaríski stærstur, með um 46% hlutdeild. Í Evrópu var mestur vöxtur í Frakklandi og Ítalíu á árinu 2003, yfir 45% í báðum löndunum að því er segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að drifkraftar vaxtar eru m.a. gildislok einkaleyfa en t.a.m. í Bandaríkjunum renna flest einkaleyfin út á árunum 2006 og 2010. Árin 2004 og 2005 eru ár Bretlands og Þýskalands og á árinu 2007 eru flest einkaleyfi í Frakklandi, Spáni og Ítalíu að renna út. Vöxtur samheitalyfjamarkaðarins í Evrópu verður bæði drifinn áfram af gildislokum einkaleyfa og af aukinni neyslu samheitalyfja en í Bandaríkjunum verður það fyrst og fremst gildislok einkaleyfa.


"Fram til þessa hefur Actavis einungis markaðssett lyf í Evrópu en vinnur nú að því að komast inn á Bandaríkjamarkað. Félagið hefur nú þegar lokið við tvær skráningarumsóknir og eru fyrstu tekjur frá Bandaríkjamarkaði áætlaðar á árinu 2006. Þessu til viðbótar eru 8-10 umsóknir (ANDA filings) áætlaðar á þessu ári en að öllu jöfnu eru þá 12-18 mánuðir í það að samheitalyfin verða markaðssett.

Actavis hyggst markaðssetja lyfin undir eigin vörumerkjum í Bandaríkjunum og stýra markaðsstarfinu sjálft. Actavis skoðar nú m.a. kaup á fyrirtækjum sem auðveldar félaginu innkomu inn á Bandaríkjamarkað en einnig kemur til greina að kaupa lyfjasöfn (lyfjaportfolio). Kaup á lyfjasafni tryggir Actavis aukið lyfjaúrval og gæti að okkar mati leitt til þess að þeir komist fyrr inn á Bandaríkjamarkað en nú er áætlað," segir í Vegvísi Landsbankans.

Að mati Greiningardeildar Landsbankans hefur Actavis gott svigrúm til þess að ráðast í allt að 50 ma.kr. fjárfestingu/fyrirtækjakaup. Félagið fékk heimild til hlutafjáraukningar að nafnverði 450 m.kr. á síðasta hluthafafundi þann 31. mars sl. sem samsvarar um 18 mö.kr. Að því gefnu að Actavis nýti sér þá heimild hefur fyrirtækið möguleika á um 30 ma.kr. skuldsetningu miðað við óbreytt 40% eiginfjárhlutfall.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.