Ákvörðun Apple um að hætta að nota örgjörva Intel í borð- og fartölvur sínar og hanna þess í stað sína eigin er ein mesta stefnubreyting í sögu fyrirtækisins síðan Steve Jobs tilkynnti samstarfið við Intel fyrir hálfum öðrum áratug.

Hinir nýju örgjörvar verða af svipuðum meiði og þeir sem Apple hannar og notar nú þegar í síma sína og spjaldtölvur, sem skapar ýmsa nýja möguleika, bæði fyrir neytendur og fyrirtækið. Í breytingunni felast þó einnig áskoranir, bæði fyrir Apple og hugbúnaðarhönnuði, en stefnt er á að umskiptin taki tvö ár.

Kunnuglegt stef
Ákvörðunin rímar strax við hugsunarhátt tæknirisans fyrir þeim sem til þekkja. Tilhneigingin hefur verið að reyna að stjórna sem allra stærstum hluta virðiskeðjunnar, ásamt því að hanna helst alla þætti vörunnar, frá hugbúnaði til vélbúnaðar og aukahluta.

Þannig hefur þeim tekist að stýra hönnunar- og framleiðsluferlinu og með því tímasetja nýjar vörur eins og þeir vilja, en tafir á útgáfu nýrra örgjörva Intel síðustu ár hafa gert markaðsdeild Apple lífið leitt.

Þegar hugbúnaður er sérstaklega hannaður til að keyra á aðeins einni tegund vélbúnaðar, sem hannaður er af sama aðila, er eðli máls samkvæmt hægt að fá meira út úr honum. Örgjörvar iPhone síma Apple hafa verið hannaðir af Apple sjálfu frá 2010 með tilkomu iPhone 4, og iPad spjaldtölvurnar, sem kynntar voru til leiks sama ár, hafa frá upphafi haft slíka örgjörva.

Þróun örgjörvanna hefur gengið vel, og með árunum hafa þeir náð talsverðu forskoti á örgjörva jafnvel öflugustu Android síma á flesta mælikvarða. Í dag er svo komið að nýjasti farsíma- og spjaldtölvuörgjörvi Apple, er öflugri en örgjörvi margra fartölva, þrátt fyrir að nota mun minna rafmagn.

Mikil vinna að færa hugbúnað yfir
En þótt fræðilega séð séu farsímaörgjörvar Apple farnir að skáka fartölvuörgjörvum Intel í reiknigetu, þá virka þeir á allt annan og einfaldari hátt. Það er sá eiginleiki sem gerir þá svo sparneytna á rafmagn, en á móti munu allir stærstu hugbúnaðarframleiðendur þurfa að endurhanna forrit sín, vilji þeir nýta nýju örgjörvana og kosti þeirra til fulls.

Stýrikerfið sjálft er þar engin undantekning, og álitsgjafar segja það hversu vel skiptin ganga fyrir sig, og hversu vel nýju örgjörvarnir reynast, munu velta að verulegu leyti á því hversu vel tekst til að endurhanna innviði stýrikerfisins fyrir þá. Á sama tíma verði svo að gæta þess að notendaviðmótið sjálft verði áfram kunnuglegt og þægilegt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .