Dr. Dre þénaði tæpa 80 milljarða króna á síðasta ári og er langríkasti hip-hop listamaður veraldar. Hann er einn af upphafsmönnum gangster-rapps og G-funks. Hann hefur stjórnað upptökum hjá tónlistarmönnum eins og Snoop Dogg og Eminem. Árið 2006 stofnaði hann Beats Electronics og eftir það breyttist allt.

Andre Romelle Young, betur þekktur sem Dr. Dre, fæddist í Compton í Los Angeles árið 1965. Nánast frá blautu barnsbeini átti tónlist hug hans allan enda segir sagan að hann hafi verið skírður í höfuðið á hljómsveit föður síns, The Romelles.

Um tvítugt var hann farinn að vinna sem plötusnúður á klúbbum í Los Angeles. Þá kallaði hann sig Dr. J, sem er vísun í uppáhalds körfuboltaleikmanninn hans, Julius Erwing. Þetta var á miðjum níunda áratugnum þegar mikil gerjun var í rapp- og hip-hop tónlistarheiminum. Hann gekk til liðs við rappsveitina World Class Wreckin’ Cru og breytti sviðsnafni sínu í Dr. Dre, sem er samsuða úr plötusnúðanafninu og skírnarnafninu Andre.

Sló í gegn með NWA

Dr. Dre sló fyrst í gegn með rappsveitinni NWA (Niggaz Wit Attitudes) en plata sveitarinnar, „Straight Outta Compton“, markaði upphaf gangster-rapps. Sveitin var skipuð fimm ungum mönnum en Dr. Dre og Ice Cube voru Lennon og McCartney – aðalmennirnir. Til að allrar sanngirni sé gætt þá er Ice-T einnig talinn einn af upphafsmönnum gangsterrapp-tónlistarbylgjunnar.

Dr. Dre hætti í NWA árið 1991 þegar sveitin var á hátindi ferlisins. Hann kynntist Calvin Cordozar Broadus, Jr., betur þekktum sem Snoop Dogg, og þar með hófst nýr kafli í lífi kappans. Fyrsta sólóplata Dr. Dre, The Chronic,kom út árið 1992 og sló í gegn. Snoop Dogg átti sinn þátt í því enda rappaði hann í mörgum laganna, meðal annars slagaranum Nuthin’ but a ‘G’ Thang. Platan markaði ákveðin þáttaskil því með henni var sleginn nýr tónn í rappinu, tónn sem æ síðan hefur verið nefndur G-funk (Gangsta-funk). Takturinn er hægur, bassinn þungur, laglínan afslöppuð og í bakgrunni hljóma kvenraddir.

22 tilnefndur til Grammy-verðlauna

Alveg frá byrjun tíunda áratugarins hefur Dr. Dre unnið sem upptökustjóri hjá hinum og þessum listamönnum. Hann þykir gríðarlega fær á þessu sviði og stjórnaði meðal annars upptökum á Doggystyle, fyrstu sólóplötu Snoop Dogg árið 1993. Platan fór rakleiðis í 1. sæti á Billboard vinsældalistanum, en það hafði aldrei gerst áður að frumraun tónlistarmanns hefði stokkið beint í 1. sætið.

Auk þess að hafa unnið sem upptökustjóri hjá Snoop Dogg, Eminem og 2Pac hefur Dr. Dre stjórnað upptökum hjá 50 cent, Mary J. Blige, The Game og Nate Dogg – svona til að nefna nokkra listamenn sem hann hefur unnið með. Dr. Dre hefur 22 sinnum verið tilnefndur til Grammy-verðlaunanna og sex sinnum unnið.

Stofnar Beats Electronics

Árið 2006 urðu enn ein þáttaskilin í lífi Dr. Dre. Þá stofnaði hann fyrirtækið Beats Electronics með vini sínum Jimmy Iovine. Á þessum tíma var ólöglegt niðurhal tónlistar að aukast og Ipodinn, með sínum litlu plast heyrnartólum, var að ryðja sér til rúms. Þetta fór mjög í taugarnar á þeim félögum og sérstaklega Dr. Dre sem á að hafa sagt: „Gaur, það er eitt að fólk steli tónlistinni minni en að það er annað að eyðileggja upplifunina.“

Uppgangur Beats-heyrnartólanna hefur verið ótrúlegur. Til að gera langa sögu stutta þá framleiðir fyrirtækið vinsælustu heyrnartól í heims í dag. Þau eru ekki ódýr. Hér heima er algengt verð frá 40 þúsund krónum og upp úr.

Í heimildarmyndinni The Art of Rap, sem kom út fyrir tveimur árum, var talað við Dr. Dre. Þar kom fram að hann hefði nánast verið í hljóðveri á hverjum degi síðustu 27 ár. Hann sagðist mest hafa tekið sér tveggja vikna frí frá hljóðversvinnunni. Þegar þetta er haft í huga er kannski ekkert skrítið að maðurinn hafi framleitt vinsælustu heyrnartól heims.

Árið 2011 keypti snjallsímaframleiðandinn HTC 50,1% hlut í Beats Electronics fyrir 309 milljónir dollara (38 milljarða króna). Ári seinna seldi HTC 25% hluti í fyrirtækinu aftur til Beats á 150 milljónir dollara (18,5 milljarða króna). Árið 2013 seldi HTC síðan restina, um 25%, á 265 milljónir dollara (33 milljarða króna). Á tveimur árum hagnaðist HTC því um 13,5 milljarða króna á viðskiptum með hluti í Beats, en smá þolinmæði hefði skilað fyrirtækinu enn meiri gróða því uppgangur Beats var rétt að hefjast. Skömmu síðar þetta ár keypti fjárfestingarfyrirtækið The Carlyle Group tæplega helmingshlut í Beats á 500 milljónir dollara (62 milljarða króna) og var fyrirtækið þá metið á um milljarð dollara.

Apple kaupir

Í byrjun þessa árs birtust fréttir af því að Apple væri í samningaviðræðum um kaup á Beats Electronics. Þær fréttir áttu við rök að styðjast því síðasta sumar var gengið frá viðskiptunum. Apple keypti fyrirtækið og borgaði litla 3 milljarða dollara fyrir (370 milljarða króna). Talið er að á þeim tíma sem viðskiptin gengu í gegn hafi Dr. Dre átt 15% hlut í Beats.

Í dag er Dr. Dre ríkasti hip-hop listamaður veraldar og kappar eins og P. Diddy og Jay-Z eiga ekki roð í hann. Forbes gaf út lista í haust yfir þá hip-hop listamenn sem þénað hafa mest á þessu ári. Þar sat Dr. Dre í efsta sæti með 620 milljónir dollara (76,6 milljarða króna). Næstir á eftir honum voru einmitt þeir félagar P. Diddy og Jay-Z með 60 milljónir dollara hvor (7,4 milljarða króna).

Greinina má í heild má lesa í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .