Samkvæmt nýrri rannsókn New World Wealth sem CNN Money gerir að umfjöllunarefni sínu fluttu 11.000 milljónamæringar til Ástralíu árið 2016 - samanborið við 8.000 milljónamæringa árið áður.

Algengast var að Bandaríkin og Bretland toppuðu listann yfir lönd þangað sem flestir milljónamæringar leituðu, en nú er af sem áður var. Breytingin stafar meðal annars af því að milljónamæringar frá Kína og Indlandi flytjast nú til landsins í auknum mæli.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar New World Wealth þá dregur sólin milljónamæringana að, sem og öflugt heilbrigðiskerfi landsins, sem er talið vera í betra ásigkomulagi en heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna og Bretlands.

Bandaríkin enn vinsæl

Árið 2016 fluttust 10 þúsund milljónamæringar til Bandaríkjanna og að mati New World Wealth er talið ólíklegt að valdaskipti í þessu ríkasta landi heims hafi mikil áhrif á fólksflutninga.

Jafnframt fluttust 8 þúsund milljónamæringar til Kanada. Ríkir Kínverjar flytjast í auknum mæli til Vancouver og ríkir Evrópubúar til Toronto og Monreal.

Milljónamæringar flýja Frakkland

Ríflega 12 þúsund milljónamæringar yfirgáfu Frakkland í fyrra samkvæmt rannsókninni, en í heildina hafa 60 þúsund milljónamæringar yfirgefið landið frá árinu 2000.

Talið er að hægur vöxtur efnahagslífsins í Frakklandi sem og hryðjuverkaógnin hafi spilað inn í. Milljónamæringarnir sem flytjast búferlum frá Frakklandi fara gjarnan til Bretlands, Ástralíu, Kanada, Bandaríkjanna og Ísrael.