Sá Icesave-samningur sem íslenska samninganefndin hefur lagt fyrir Breta og Hollendinga miðar við að lánið verði endurgreitt á næstu sex árum, að engir vextir verði greiddir af því fyrir tímabilið 2009 til 2011 og að 2,5 til 3,5 prósenta álag ofan á sex mánaða LIBOR-vexti (breytilegir vextir) verði greiddir af eftirstandandi höfuðstól á árunum 2012 til 2016. LIBOR-vextir eru fljótandi millibankavextir í London og þar af leiðandi breytilegir. Þeir eru nú um 0,9 prósent.

Þetta kemur fram í minnispunktum Lee Buchheit, formanns samninganefndar Íslands í Icesave-deilunni, vegna fundar hans með Bretum og Hollendingum í gær, 25. febrúar 2010. Minnispunktanna er að finna inni á heimasíðu Wikileaks.

Samkvæmt tillögum íslensku samninganefndarinnar þá er vilji til að semja um kúlulán til sex ára sem Ísland myndi greiða þann 5. júní 2016. Eignir Landsbankans myndu ganga upp í greiðslu lánsins á þessum tíma. Lánið myndi ekki bera neina vexti fram til 1. janúar 2012. Eftir það myndu fastir vextir reiknast á eftirstandandi höfuðstól þess með eftirfarandi hætti:

  • 2012: 2,5 prósent vextir.
  • 2013: 2,75 prósent vextir.
  • 2014: 3,0 prósent  vextir.
  • 2015: 3,25 prósent vextir.
  • 2016 (fram til 5. júní): 3,5 prósent vextir.

Þann 5. júní 2016 myndu afgangur lánsins, eftirstöðvar höfuðstólsins auk vaxtagreiðslnanna, verða greiddar samkvæmt skilmálum samkomulags sem kallast „Shortfall Indemnity Agreement“ og íslenska sendinefndin hefur þegar lagt fyrir Breta og Hollendinga. Það samkomulag hefur ekki verið gert opinber.