Viðskiptaafgangur við útlönd á síðasta ári var rétt um helmingur af afgangi ársins 2016. Ástæðan er stóraukinn vöruskiptahalli, fremur lítill vöxtur í þjónustuafgangi og talsvert óhagstæðara framlag þáttatekna og rekstrarframlaga milli ára. Erlend staða þjóðarbúsins hélt hins vegar áfram að batna á síðasta ári og var jákvæð um 7,5% af vergri landsframleiðslu í árslok 2017. Greining Íslandsbanka segir að erlenda staðan ekki verið betri í nútíma hagsögu Íslands.

Samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans var 2,8 ma.kr. afgangur af viðskiptajöfnuði á síðasta fjórðungi ársins 2017. Er það minnsti viðskiptaafgangur frá fyrsta fjórðungi ársins 2014, en til samanburðar var viðskiptaafgangurinn á lokafjórðungi ársins 2016 rúmlega 43 ma.kr.

Alls nam viðskiptaafgangur árið 2017 rúmlega 93 mö.kr. Til samanburðar var afgangurinn tæpir 189 ma.kr. árið 2016 og skrapp hann því saman um helming á milli ára. Þetta er minnsti viðskiptaafgangur frá árinu 2012, ef horft er fram hjá áhrifum gömlu bankanna á reiknaðar þáttatekjur á árunum 2008 - 2015.

Þessi þróun skrifast að miklu leyti á stóraukinn vöruskiptahalla milli ára. Halli á vöruskiptum fór úr tæpum 102 mö.kr. árið 2016 í 167 ma.kr. í fyrra, að stærstum hluta vegna mikils vaxtar í vöruinnflutningi. Þjónustujöfnuður var hagstæður um 272 ma.kr. á síðasta ári samanborið við 257 ma.kr. árið 2016, og skýrist aukinn afgangur þar af vexti í ferðaþjónustunni að mestu leyti. Loks fóru þáttatekjur nettó frá því að vera hagstæðar um ríflega 33 ma.kr. árið 2016 yfir í tæplega 12 ma.kr. halla á síðasta ári. Að stórum hluta skýrist sú breyting af minni fjármagnstekjum af beinni fjárfestingu innlendra aðila erlendis.