Tvær þjóðhagsspár hafa verið birtar síðan Wow-höggið reið af í lok mars [innskot blaðamanns: þriðja hagspáin kom út eftir birtingu greinarinnar]. Ný Þjóðhagsspá Hagstofunnar kom út fyrir síðustu helgi og Greiningardeild Arion banka birti nýja spá í apríl. Óhætt er að segja að spárnar hafi breyst mikið frá síðustu útgáfu.

Í október í fyrra gerði greining Arion ráð fyrir að hagvöxtur í ár yrði um 1%, Í dag hljóðar spáin upp á 2% samdrátt. Hagstofan endurskoðaði vetrarspá sína (birt í nóvember) í lok febrúar sl. og færði þá hagvaxtarspá fyrir 2019 úr 2,5% niður í 1,7%. Í nýrri Þjóðhagsspá er reiknað með að landsframleiðsla í ár dragist saman um 0,2%.

Í stórum dráttum segja spárnar svipaða sögu: Hagkerfið stendur frammi fyrir samdrætti. Hins vegar eru spárnar ósamhljóma um hversu djúp niðursveifla er í vændum. Hagstofan reiknar með 0,2% samdrætti í ár, en að mati greinenda Arion banka mun landsframleiðsla dragast saman um tæp 2%. Spá Arion banka er þó ekki eingöngu dekkri hvað dýpt niðursveiflunnar varðar heldur reiknar bankinn einnig með að hagvöxtur verði minni og lengur að taka við sér en Hagstofan gerir ráð fyrir.

Það vekur athygli að meiri munur er á spánum til styttri tíma litið (níu mánuði), samhljómurinn eykst því lengra sem líður á spátímann og báðir aðilar líta árið 2021 nær sömu augum.

Þriðja hagspáin eftir fall Wow kom út síðastliðinn föstudag frá greiningardeild Landsbankans, sem einnig spáir samdrætti í landsframleiðslu á yfirstandandi ári. Landsbankinn er nær Hagstofunni í spá sinni og reiknar með 0,5% samdrætti á þessu ári og 2,5% hagvexti árið 2020. Líkt og Hagstofan spáir Landsbankinn einnig að einkaneysla muni aukast í ár um 1,8%, samanborið við 2,4% vöxt í spá Hagstofunnar og 0,1% samdrátt hjá Arion banka. Þá spáir Landsbankinn að útflutningur komi til með að dragast saman um 5,5% í ár, miðað við 10,9% samdrátt í spá Arion og 2,5% samdrátt í spá Hagstofunnar.

Tvöfaldur skellur á útflutning

Erna Björg Sverrisdóttir, hagfræðingur hjá Arion banka, segist vona að bjartsýni Hagstofunnar verði að veruleika, en hún hafi engu að síður efasemdir um að það verði raunin. „Þróun einkaneyslu og útflutningstekna er það sem greinir helst á milli en það er erfitt að festa fingur á hvað valdi þessum mismun. Hvort það eru ólík gögn eða önnur aðferðafræði, sem liggur að baki, get ég ekki staðhæft með vissu.

Hagstofan reiknar með að útflutningstekjur muni aðeins dragast saman um 2,5% núna í ár. Að okkar mati er ansi lítið í ljós þess að útflutningshliðin hefur orðið fyrir tvöföldum skell að undanförnu, annars vegar loðnubresti og hins vegar fækkun ferðamanna. Við höfum gert nokkrar reikniæfingar til að reyna að átta okkur í hverju munurinn er fólginn. Við gátum reiknað okkur niður á áþekka niðurstöðu og Hagstofan fær þegar við tókum tillit til loðnubrests og  tókum mið af tölum ISAVIA um fjölda ferðamanna. Það er rétt að ítreka að þetta er möguleg skýring á því  hvers vegna við spáum 11% samdrætti í útflutnings en Hagstofan aðeins 2,5%. Þetta er alls ekki fullyrðing, en ef tilgátan á við rök að styðjast er Hagstofan að okkar mati  heldur of bjartsýn á þróunina,” segir Erna Björg.

Marinó Melsted, sérfræðingur hjá Hagstofunni, segir tæknilegar ástæður mögulega skýra mikinn mun í spá um þróun útflutnings og fjárfestinga á yfirstandandi ári.  „Útflutningur á flugvélum hefur töluverð áhrif á gögn okkar um útflutning og fjárfestingu. Það sem af er ári hafa flugvélar að andvirði nær 20 milljarða króna verið fluttar út. Þetta hefur áhrif til hækkunar á tölum um útflutning en lækkar einnig tölur um vöxt fjárfestinga. Að samanlögðu eru áhrifin á hagvöxt hlutlaus, en engu að síður skekkir þetta nokkuð myndina sem spáin dregur upp af fjárfestingum og útflutningi. Þetta kann að einhverju leyti að skýra mikinn mun þessara liða landsframleiðslunnar í annars vegar okkar spá og Arion banka hins vegar,“ segir Marinó.

Hvað gera heimilin?

Spárnar eru einnig mjög ólíkar hvað þróun einkaneyslu varðar. Arion banki reiknar með lítils háttar samdrætti (-0,1%) á meðan Hagstofan gerir ráð fyrir að einkaneysla aukist um 2,4%. Einkaneysla er stærsti liðurinn í þjóðhagsreikningnum og litlar breytingar geta því haft töluverð áhrif á niðurstöðu reikningana.

„Einkaneysla hefur framar öðru dregið vaxtarvagninn síðastliðin ár og þróun hennar mun skipta miklu máli,“ segir Erna Björg. „Tölur um kortaveltu hafa verið uppfærðar síðan spá okkar kom út. Eldri tölur gáfu til kynna að veltan hefði dregist saman en nýjar tölur sýna að veltan hefur aukist lítillega. Þetta þýðir að líklega er spá okkar sé svartsýnni en efni standa til.

Meira atvinnuleysi í okkar spá gæti líka skipt hér máli, en við reiknum með 4,4% atvinnuleysi í ár en Hagstofan 3,7%. Án þess að ég þekki aðferðafræði Hagstofunnar til hlítar þá virðist atvinnuleysi vega þyngra til lækkunar á einkaneyslu í okkar útreikningum. Samkvæmt gögnum okkar þá draga heimilin stundum hratt saman seglin í neyslu þegar atvinnuleysi er að aukast. Hvort það verði raunin nú er hins vegar óvíst. Heilt yfir þá finnst mér 2,4% vöxtur ansi vel í lagt hjá Hagstofunni, en að sama skapi bendir ýmislegt til þess að spá okkar kunni að vera heldur of hófleg.  Ætli lendingin verði ekki einhvers staðar þarna á milli,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir.