Atvinnuleysi fór úr 6,7% niður í 6,3% á milli mánaða í Bandaríkjunum í apríl. Þetta skýrist einkum af því að störfum fjölgaði talsvert síðan í mars. Niðurstaðan kemur á óvart enda bjuggust greiningaraðilar almennt við því að hægar myndi draga úr atvinnuleysi en raunin varð.

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur ekki verið minna í fimm og hálft ár eða síðan í september árið 2008.

Í umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times af bandarískum vinnumarkaði segir að staðan auki vonir manna um að bandaríska hagkerfið standi styrkar en áður.

Þá segir blaðið að þessi jákvæðu merki af vinnumarkaðnum geti aukið líkurnar á því að bandaríski seðlabankinn hækki stýrivexti fyrr en ella. Þeir hafa nú staðið um nokkurt skeið nálægt núlli.