Vefurinn Modernus, sem sér um að mæla umferð um íslenska vefmiðla, er til sölu. Greint er frá þessu á Vísi.

„Þetta hefur dregist saman á undanförnum árum en veltan jókst reyndar um 5% á síðasta ári. Á síðustu mánuðum hefur áhuginn fyrir samræmdum vefmælingum aukist og vefjunum er farið að fjölga aftur,“ segir Jens Pétur Jensson, framkvæmdastjóri Isnic, í samtali við Vísi, en Isnic er núverandi eigandi Modernus.

Hann segir vefmælingarnar hafa verið reknar nokkurn veginn á sléttu þar sem tekjurnar nemi tæpum 20 milljónum króna og kostnaðurinn sé svipaður. Þeir hafi getað rekið vefinn í járnum en ekki meira en það.