„Við erum að ná að manna eftir farþegaforsendum og virðumst vera í betri stöðu en margir aðrir flugvellir í Evrópu," segir Brynjar Már Brynjólfsson, mannauðsstjóri ISAVIA.

Stórir flugvellir og flugfélög í Evrópu og í Bandaríkjunum hafa þurft að fella niður flug vegna manneklu. Þannig hafa borist kvartanir frá farþegum á flugvellinum í Manchester út af fimm klukkustunda biðröðum. Bresku flugfélögin EasyJet og British Airways þurftu jafnframt að aflýsa hundruðum ferða í apríl vegna skorts á starfsfólki.

„Við höfum ekki lent í þessu og engar fréttir borist um biðraðir eða tafir. Við höfum náð að halda í okkar þjónustuviðmið og hefur biðtími í öryggisleit ekki aukist að undanförnu."

Enn langt í land

Starfsmönnum Isavia fækkaði um 30% í faraldrinum og segir Brynjar að þar hafi mest verið um framlínustörfin að ræða. „Fyrir síðasta sumar endurréðum við þá sem misstu vinnuna í faraldrinum og höfðu áhuga á að hefja aftur störf hjá okkur. Við erum núna að ráða 300 sumarstarfsmenn, mest megnis fólk sem ekki hefur starfað hjá okkur áður."

Hann segir flesta flugvelli í Evrópu glíma við traustvanda. „Traust fólks á flugvallarstörfum er enn lítið eftir faraldurinn, enda lítill fyrirsjáanleiki verið í þeim efnum að undanförnu. Við fengum um 700-800 umsóknir fyrir sumarið en til samanburðar voru umsóknirnar um 800-1.500 fyrir faraldurinn. Við eigum því enn langt í land."

Flugfélögin nái að halda úti áætlunum

„Það hriktir í stoðunum víða. Það hefur víða komið fram skortur á flugvallarstarfsfólki og flugmönnum í heiminum," segir Kristján Sigurjónsson hjá Túrista. „Samkvæmt tölum sem ég hef sjálfur tekið saman, stefnir í að framboð á flugi í vor og í sumar verði á pari við það sem var árið 2019."

Kristján bætir við að það eigi eftir að koma í ljós hvort flugfélögin nái að halda úti eins metnaðarfullum áætlunum og þau eru með til sölu núna. Þó bendi allt til þess að þau nái að gera það. „Flugfélög í Bandaríkjunum eru farin að skera niður áætlanir sínar. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort svipað gerist hérlendis, en það eru engin teikn á lofti að slíkt sé að gerast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .