Glitnir tilkynnti í dag að Morten Bjørnsen (47), hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Glitnis í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Hann gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra hjá Fokus Bank í Noregi. Hann mun bera ábyrgð á starfsemi Glitnis í Noregi, þar með talið BNbank og BNkreditt, Norsk Privatøkonomi, Glitnir Bank og Glitnir Factoring auk þess að hafa með höndum samhæfingu á starfsemi bankans í Svíþjóð og Finnlandi, segir í fréttatilkynningu.

?Við erum mjög ánægð með að Morten Bjørnsen hafi ákveðið að ganga til liðs við Glitni. Hann hefur mikla reynslu, hefur starfað í yfir 20 ár í fjármálageiranum, hjá Fokus Bank og DnB, bæði innan og utan Noregs. Þá hefur hann mikla reynslu af bankaþjónustu á sviði orkugeirans og þjónustu við olíuiðnaðinn en hvort tveggja eru greinar sem Glitnir leggur mikla áherslu á í útrás bankans á alþjóðamörkuðum?, segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis.

Morten Bjørnsen hefur verið meðal helstu stjórnenda Fokus Bank síðan hann gekk til liðs við bankann árið 1999. Hann hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs bankans og einnig leitt starfsemi bankans í Austur-Noregi og Osló. Þá hefur hann leitt sérhæfða þjónustu bankans við tilteknar atvinnugreinar, meðal annars þjónustu bankans við skipaiðnaðinn og fjármálastofnanir. Áður en hann gekk til liðs við Fokus Bank starfaði Bjørnsen hjá DnB frá 1986 til 1999, í Osló og Houston í Bandaríkjunum, þar sem hann sinnti einkum verkefnum á sviði orkuiðnaðar.

?Á þeim tveimur áratugum sem ég hefi starfað í fjármálageiranum hefi ég verið svo lánsamur að starfa hjá tveimur af öflugustu fjármálafyrirtækjum í Noregi og á Norðurlöndunum. Ég hefi fylgst með Glitni og innkomu þeirra inn á norska markaðinn frá 2004 og verið mjög hrifinn af þeirri skýru stefnu sem bankinn hefur markað sér og hversu vel hefur gengið að fylgja þeirri stefnu eftir. Það er afar spennandi að ganga til liðs við Glitni á þessum tímapunkti og fá tækifæri til að taka þátt í frekari vexti bankans á norrænum bankamarkaði?, segir Morten Bjørnsen sem mun hefja störf hjá Glitni snemma í haust.

Frá því Glitnir keypti fyrsta félagið í Noregi árið 2004 hefur bankinn vaxið mikið á norræna fjármálamarkaðnum. Til styðja við þennan vöxt og gera bankanum kleift að vaxa enn frekar, voru skipulagsbreytingar kynntar í febrúar. Til þessa hefur Frank O. Reite verið framkvæmdastjóri Glitnis á Norðurlöndunum auk þess að vera framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta bankans og leiða viðskiptaþróunarteymi sem vinnur að frekari vexti Glitnis og samþættingu innan samstæðunnar. Reite mun nú einbeita sér að Markaðsviðskiptum bankans á Íslandi, í Noregi og Finnlandi þar sem Glitnir keypti nýlega eignastýringarfyrirtækið FIM Group, auk þess að starfa áfram að verkefnum sem lúta að frekari vexti félagsins, að því er kemur fram í tilkynningunni.