Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti samhljóða í gærkvöldi fjárhagsáætlun fyrir árið 2009. Í tilkynningu bæjarins segir að hagrætt verði í rekstri bæjarins til að mæta lægri tekjum sem og hækkun kostnaðar og launa svo komast megi hjá því að hækka gjaldskrár vegna þjónustu.

Útsvarsprósenta verður 13,03% og eru útsvarstekjur áætlaðar 2.518 milljónir króna. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 446 milljónir króna, sem er 2% aukning frá fyrra ári vegna fjölgunar íbúða en álagningahlutföll fasteignaskatta eru óbreytt.

Áætlunin var unnin sameiginlega af öllum flokkum í bæjarstjórn. Megináherslur hennar eru að standa vörð um grunn- og velferðarþjónustu sveitarfélagsins, að Mosfellsbær taki virkan þátt í því að halda uppi atvinnustigi með mannaflsfrekum framkvæmdum og verkefnum en haldi jafnframt áfram að sýna ábyrgan rekstur.

Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 40% hækkun á niðurgreiðslum til foreldra sem eru með börn hjá dagforeldrum og að heimgreiðslur hefjist frá 9 mánaða aldri í stað við eins árs aldur eins og áður. Þá er gert ráð fyrir óbreyttum gjaldskrám í leik- og grunnskólum.

Tveir nýir skólar verða teknir í notkun á árinu, Krikaskóli, sem verður skóli fyrir eins til níu ára börn, og framhaldsskóli sem hefur göngu sína í bráðabirgðahúsnæði næsta haust. Framkvæmdakostnaður við Krikaskóla er rúmur hálfur milljarður á árinu 2009. Að auki eru fyrirhugaðar ýmsar aðrar framkvæmdir. Í þær verður þó ekki ráðist nema að því tilskildu að fjármagn verði tryggt. Eignfærðar fjárfestingar eru áætlaðar um einn milljarður á árinu.

Í fjárhagsáætlun er jafnframt gert ráð fyrir því að laun bæjarfulltrúa og nefndarfólks lækki í samræmi við ákvörðun kjaranefndar um þingfararkaup og að laun hjá æðstu stjórnendum bæjarins lækki um 6-7%. Þá verður gert sérstakt átak í að lækka starfstengdan kostnað.

Í greinargerð bæjarstjóra, Haraldar Sverrissonar, segir meðal annars: ,,Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er sterk. Sveitarfélagið býr að því að hafa á undanförnum árum verið að skjóta styrkum stoðum undir fjárhagslega stöðu sína. Mosfellsbær hefur ekki tekið lán síðan 2004 og hefur unnið jafnt og þétt að því að greiða niður lán. Ennfremur eru erlendar skuldir lítill hluti skuldasafnsins.”

Gert er ráð fyrir að skatttekjur lækki nokkuð milli ára.  Heildartekjur A og B hluta bæjarsjóðs Mosfellsbæjar á árinu 2009 eru áætlaðar 4.276 mkr. en gjöld án fjármagnsliða áætluð 4.300 mkr.  Rekstrarhalli án fjármagnliða er því áætlaður 24 mkr.  Áætlað er að veltufé frá rekstri A- og B- hluta verði jákvætt.