Mottumars hefst í dag en það er árlegt fjáröflunarátak á vegum Krabbameinsfélagsins til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Keppendur í átakinu safna yfirvaraskeggi út marsmánuð, skrá sig til leiks á heimasíðu félagsins mottumars.is og safna þar áheitum til styrktar átakinu. Í ár leggja fjölmargir karlakórar átakinu lið með flutningi á laginu Hraustir menn .

Í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu segir að ár hvert greinast um 750 íslenskir karlar með krabbamein, en þriðji hver karl getur búist við að fá krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni. Nú eru á lífi um 5.500 karlar sem fengið hafa krabbamein og lífshorfurnar hafa batnað mikið. Um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 66% vænst þess að lifa svo lengi.