MP banki og Saga Fjárfestingarbanki hafa gengið frá samkomulagi um kaup MP banka á fyrirtækjaráðgjöf Sögu Fjárfestingarbanka. Í því felst þjónusta og ráðgjöf varðandi kaup, sölu og samruna fyrirtækja sem og fjármögnun fyrirtækja og stofnana, umsjón með útboðum og skráningu verðbréfa og skylda starfsemi.

Markmið MP banka með samningnum er að styrkja stöðu sína á fyrirtækjamarkaði með aukinni áherslu á fyrirtækjaráðgjöf og tengda starfsemi. Saga Fjárfestingarbanki mun hins vegar draga saman seglin á þessu sviði og einbeita sér að markaðsviðskiptum og verðbréfamiðlun.

Samhliða kaupunum munu sex starfsmenn Sögu Fjárfestingarbanka ganga til liðs við MP banka. Þá mun MP banki yfirtaka réttindi og skyldur Saga samkvæmt samningum við viðskiptavini sína á sviði fyrirtækjaráðgjafar og inna af hendi þá samningsbundnu þjónustu sem fyrirtækjaráðgjöf Sögu hefur skuldbundið sig til að veita viðskiptavinum.

„Við teljum mikla möguleika framundan í að veita fyrirtækjum og fjárfestum ráðgjöf við kaup eða sölu rekstrar eða eigna, fjármögnun, skráningu í kauphöll og skylda þætti. Þetta reynslumikla teymi, sem nú gengur til liðs við MP banka, er í fararbroddi á þessu sviði og við væntum mikils af þeirra störfum“, segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka. „Við munum í góðu samstarfi við Saga Fjárfestingabanka standa að hnökralausum flutningi á verkefnum til MP banka  og tryggja áframhaldandi framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini.“

Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits og Samkeppniseftirlits.