"Ég er mjög ánægður með þetta uppgjör og mér finnst að í því endurspeglist góð og ákveðin merki þess að það sem við höfum ætlað okkur muni ganga upp," segir Skarphéðinn Berg Steinarsson stjórnarformaður Og fjarskipta, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag, en 199 milljóna króna hagnaður varð af rekstri félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins.

"Eftir kaupin á 365 erum við með félag sem hefur miklu breiðari tekjustofna og rekstur en áður og þar með er áhættunni líka dreift meira en áður. Það kemur fram í uppgjörinu að ljósvakastarfsemin er álíka stór hluti af heildarrekstrinum og farsímaþjónusta, þannig að þetta er allt annað félag en áður var. Það er að færast mjög ákveðið úr því að vera fjarskiptafyrirtæki yfir í að vera fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki með breiða starfsemi."

Umsvif og framlegð fjölmiðlahlutans var yfir væntingum greiningardeilda bankanna. Skarphéðinn Berg segir að fjölmiðlareksturinn hafi gengið mjög vel. "Og ég held að þarna komi fram að það er hægt að reka fjölmiðla með arðbærum hætti á Íslandi ef rekstrarumhverfið er rétt."

Hann er spurður hvort bæði dagblöðin, Fréttablaðið og DV, séu rekin með hagnaði. "Afkoman á báðum blöðunum er í lagi," segir Skarphéðinn. "Það er mun betri afkoma á Fréttablaðinu en DV, en dagblaðareksturinn í heild er að bera sig. Ég get hins vegar ekki farið út í nákvæma afkomu á einstökum blöðum."

Hann segist ekki telja að samkeppni frá nýju fríblaði, Blaðinu, setji umtalsvert strik í reikninginn. "Nei, ég býst ekki við því. Auðvitað tökumst við á við þá samkeppni sem við fáum hverju sinni. Við erum vanir því að eiga í samkeppni við nokkur öflugt fjölmiðlafyrirtæki. Auðvitað verður einhver breyting en ég reikna ekki með að þetta eitt og sér breyti miklu."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.