Stjórn samfélagsmiðilsins Twitter segir í tilkynningu að það ætli sér að þvinga yfirtöku Elons Musk í gegn ef þess þarf, að því er Bloomberg greinir frá. Tilkynningin kemur í kjölfarið á því að Musk setti yfirtökuna á ís meðan hann bíður staðfestingar á fjölda gerviaðganga, en honum hefur reynst erfitt að fá þær tölur staðfestar frá fyrirtækinu.

„Við ætlum okkur að ganga frá viðskiptunum og þvinga fram samrunann,“ sagði stjórn Twitter í tilkynningu á þriðjudag en stjórnin var einróma með að mæla með því að hluthafar Twitter samþykktu tilboð Musk, en það hljóðar upp á 54 dollara á hlut en við lokun markaða í gær var verðið 38 dollarar á hlut.

Fyrirhugaða yfirtakan felur í sér 1 milljarðs dala sektargjald fyrir þann aðila sem veldur því að yfirtakan fari ekki í gegn en það þýðir þó ekki að umræddum aðila sé tækt að labba í burt og greiða sektina. Samrunasamningurinn felur í sér frammistöðukvöð, þannig að ef Twitter uppfyllir allar skyldur sínar þá getur stjórn félagsins farið fyrir dómstóla og þvingað fram samrunann og það í stað skaðabóta.