Við lokun markaða í gær hafði Úrvalsvísitalan hækkað um ríflega 40% frá áramótum, og í kjölfarið veltu ýmsir fyrir sér hvort markaðurinn væri hreinlega of hátt verðlagður eða ofmetinn. Í frétt Viðskiptablaðsins í gær kom fram að sérfræðingar teldu sölu Actavis og þá fjármuni sem losnuðu við hana vera eina af hinum augljósu ástæðum hækkunarinnar, en þó er hægt að tína til fleiri ástæður eins og auðsáhrif og miklar væntingar til afkomu, vaxtar og yfirtaka félaga í Kauphöllinni.


Fjórðungsuppgjör félaga munu birtast á næstu vikum. Í dag hyggst Nýherji birta uppgjör sitt fyrir annan fjórðung og í næstu viku munu Kaupþing Banki, Exista, Bakkavör Group og Straumur-Burðarás birta sín uppgjör. Samtals hafa fjögur síðastnefndu félögin tæplega 55% vægi í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar, og því munu uppgjörin gefa góða vísbendingu um hvort fótur sé fyrir hækkun síðustu tveggja vikna, sem hefur sagna sannast verið með ólíkindum, og umfram væntingar greiningaraðila. Til mynda sendi Landsbankinn frá sér afkomuspá fyrir annan ársfjórðung þann 5. júlí síðastliðinn og setti markgildi Úrvalsvísitölunnar í lok þessa árs í 8,750, en í gær fór hún yfir 9,000 stigin í fyrsta sinn og sló enn eitt metið.


Að sögn Söndru Fairbairn, sérfræðings  hjá  greiningardeild Landsbankans, er markaðurinn nokkuð hátt verðlagður í dag: "Mér finnst kennitölur orðnar háar, en ég er ekki viss um að þær muni lækka að einhverju ráði  vegna þeirrar miklu eftirspurnar sem er til staðar ." Í áðurnefndri afkomuspá bankans var heildar-V/H-gildi fyrir markaðinn 8,9, en uppfært gildi fyrir miðvikudaginn síðastliðinn, þegar Úrvalsvísitalan braut 9,000 stiga múrinn, var í 9,7. Það liggur í augum upp að að hækkun á gengi hlutabréfa hækkar heildargildið, en  jafnframt hefur styrking krónunnar undanfarið áhrif til hækkunar V/H-gilda hjá félögum með hagnað í erlendri mynt.


Margir töldu að flest félögin í kauphöllinni hefðu verið of lágt verðlögð á síðasta ári, og síðan þá hefði undirliggjandi rekstur þeirra lítið annað en batnað - þetta á sérstaklega við um bankana. Verðmat á hlutafélögum er að mörgu leyti afstætt þar sem það veltur að mörgu leyti á vexti þeirra. Hafa ber þó í huga að félög hafa hækkað mjög mismikið og ekki það sama gengið yfir alla. Atlantic Petroleum hefur til dæmis hækkað gífurlega, án þess að hægt sé að útskýra það með haldbærum hætti.


(Sjá meira í Viðskiptablaðinu í dag)