Elon Musk varð í gær fjórði ríkasti maður í heimi með eignir að andvirði nærri 85 milljarða Bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 11.5011 milljörðum íslenskra króna, eða 11,5 billjónum króna. Elon Musk er fæddur í Suður Afríku árið 1971, en flutti 17 ára gamall til Kanada, þaðan sem móðir hans kemur frá. Tveimur árum seinna flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann auðgaðist m.a. á félögunum Zip2 og stofnanda PayPal.

Musk náði þessum áfanga eftir að hlutabréf í Tesla hækkuðu um meira en 11% í gær eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun . Það sem af er degi þegar þetta er skrifað hefur hækkun bréfa félagsins numið 2,42% og standa þau í 1.878,93 dölum. Eins og sagt var frá í síðustu viku hyggst Tesla skipta upp hverju bréfi félagsins í fimm bréf frá og með 31. ágúst næstkomandi.

Með hækkuninni í gær jókst andvirði eigna Musk um nærri 8 milljarða dala, en þar með eru einungis stofnendur Facebook, Microsoft og Amazon, þeir Mark Zuckerberg, Bill Gates og Jeff Bezos ríkari en hann. Á fyrsta helmingi ársins seldi Tesla meira en 179 þúsund bíla, sem er meira en samanlögð sala þriggja helstu keppinautanna í rafbílaframleiðslu.

Í heildina hefur gengi bréfa Tesla, þar sem mest allur auður Musk liggur, hækkað um meira en 300% á árinu, að því er Fox business greinir frá, en rafbílaframleiðandinn hefur náð að skila hagnaði á síðustu ársfjórðungum þrátt fyrir áhrif kórónuveirufaraldursins á hagkerfið.

SpaceX metið á nærri helminginn af auði Musk

Elon Musk er bæði forstjóri Tesla og SpeceX, sem náði þeim sögulega árangri í síðasta mánuði að senda fyrsta geimfarann út í geim frá bandarískri grund í nærri áratug, en geimferðastofnun landsins, NASA, hefur keypt þjónustu af Rússum síðan geimskutlunni var lagt eftir fjölda slysa og mikinn kostnað.

Auk þess er Musk stofnandi Boring Company sem hyggst flytja farþega í lottæmdum rörum á miklum hraða yfir langar vegalengdir á jörðu niðri. SpaceX er talið undirbúa að safna nærri 1 milljarði dala í hlutafjárútboði sem myndi hækka andvirði þess í 44 milljarða dala, eða andvirði nærri 6 billjóna íslenskra króna, sem samsvarar um helmingnum af heildareignum Musk.