Olíumálaráðherrar fjögurra ríkja, Sádí-Arabíu, Katar, Venesúela og Rússlands samþykktu á fundi í Doha í dag að auka ekki við framleiðslu frá því sem hún var í janúar. Samkomulagið er háð því að Íran og Írak muni einnig hætta við áform um að auka við framleiðslu á olíu. Undanfarið hefur Írak aukið verulega við framleiðslu á olíu til að fjármagna hernað gegn íslamska ríkinu og Íran hefur einnig aukið við framleiðsluna í kjölfar þess að efnahagsþvingunum var aflétt af landinu. Ríkin eru öll aðilar að OPEC sambandinu nema Rússland.

Samkomulaginu er ætlað að styðja við olíuverð sem hefur hækkað mikið á síðustu mánuðum og hefur farið illa með fjárhag þeirra ríkja sem treysta á sölu á olíu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að olíuverð hefði hækkað töluvert í kjölfar fundarins, en óljóst var þá hvort að samkomulagi hefði verið náð. Olíuverð hafði hækkað um 5% á meðan á fundinum stóð, en lækkaði örlítið eftir að niðurstöður fundarins voru birtar. Verð á Brent hráolíu hefur nú hækkað um 2,5% í viðskiptum dagsins.