*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 15. nóvember 2019 09:16

Nærri 40% aukning hagnaðar Kviku

Hagnaður Kviku banka fyrir skatta nam nærri 2 milljörðum króna. Rekstrarkostnaður jókst um nærri sama hlutfall og hagnaðurinn.

Ritstjórn
Marinó Örn Tryggvason er forstjóri Kviku banka.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Kviku banka fyrstu níu mánuði ársins nam 1,9 milljörðum króna, en á sama tíma fyrir ári nam hann 1,4 milljarða. Fyrir skatta nam hagnaðurinn í ár nærri 2 milljörðum króna, eða 1.996 milljónum króna, sem er aukning um 38% frá sama tíma fyrir ári þegar hann nam rúmlega 1,4 milljörðum króna.

Arðsemi eiginfjár bankans var 20,3%, hreinar rekstrartekjur námu 5,6 milljörðum króna króna og rekstrarkostnaður nam 3,9 milljörðum króna króna, sem er 34% aukning milli ára. Aukning var í öllum tekjustofnum bankans frá sama tímabili árið 2018. Hreinar vaxtatekjur jukust um 7%, hreinar þóknanatekjur jukust um 30% og fjárfestingatekjur jukust um 51%.

Heildareignir 30. september námu 112,6 milljörðum króna, eigið fé samstæðunnar nam 14,8 milljörðum króna og því nam iginfjárhlutfall í lok september 22,9% en 23,6% að teknu tilliti til hagnaðar á fjórðungnum. Lausafjárþekja (LCR) var 260%, heildareignir í stýringu námu 417 milljörðum króna. Starfsmenn í fullu starfi hjá bankanum voru 122 í lok september.

Afkomuáætlun Kviku gerir ráð fyrir að hagnaður á árinu verði á bilinu 2,5 til 2, 8 milljarðar króna fyrir skatta. Í upphafi árs var afkomuspá bankans 1.990 milljónir króna fyrir skatta en hefur verið breytt þrisvar síðan.

Marinó Örn Tryggvason forstjóri Kviku segir reksturinn hafa gengið vel þegar horft er á fyrstu níu mánuði ársins. „Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig reksturinn gekk á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður. Tekjumyndun bankans hefur verið góð það sem af er ári og vel hefur gengið að halda rekstrarkostnaði á áætlun. Arðsemin er góð og vel umfram langtímamarkmið bankans,“ segir Marinó Örn.

„GAMMA hefur verið hluti af samstæðu Kviku frá því í mars. Í lok september var tilkynnt um um slæma stöðu á tveimur sjóðum í rekstri GAMMA. Staða þessara sjóða olli okkur vonbrigðum en bankinn hefur lagt áherslu á að styðja GAMMA í því að gæta hagsmuna eigenda sjóðanna og hámarka verðmæti eigna þeirra.

Á árinu hefur verið ánægjulegt að sjá viðtökur við Auði og áhrifum hennar á samkeppni á innlánamarkaði. Þetta er gott dæmi um hvernig bankaþjónusta er að breytast. Mikil tækifæri felast í að taka þátt í þeim breytingum og möguleikum sem eru til staðar til að halda áfram að bæta kjör viðskiptavina.“