Leigbílaappið GetTaxi er að þróa nýjustu tækni í byltingunni í leigubílaþjónustu með því að bjóða notendum sínum upp á heimsendingarþjónustu. Með nýju þjónustunni geta notendur pantað mat, snyrtingu og aðra þjónustu beint upp að dyrum. Þetta er ein helsta nýjungin í deilihagkerfinu í dag.

Fyrirtækið segist vera það fyrsta til að víka út þjónustu leigubíla. Hins vegar býður leigubílaþjónustan Uber notendum sínum í New York nú þegar heimsendingarþjónustu frá veitingastöðum, sem lofar að koma mat til skila innan tíu mínútna. Uber hefur einnig prófað að bjóða upp á flutningaþjónustu í Hong Kong og póstþjónustu í Manhattan.

GetTaxi mun bjóða upp á þjónustuna frá og með júlí en enn liggja ekki fyrir miklar upplýsingar um hvernig þjónustan mun virka. Stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Shahar Waiser, segir þó í samtali við The Telegraph að þjónustan muni bjóða upp heimsendingu á pizzu, sushi, víni, blómum, hreinsun og pípulagningaþjónustu samhliða leigubílaþjónustu sinni. Nýja þjónustan verður í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu auk veitingastaða sem lofa að maturinn skili sér upp að dyrum innan tíu mínútna.

Fyrirtækið er nú þegar með 20.000 bílstjóra í 32 borgum, þar á meðal 6000 í London. Tekjur fyrirtækisins fyrir árið eru áætlaðar að nema 500 milljónum dollara sem er 300% aukning milli ára. Waiser telur að nýja þjónusta fyrirtækisins muni einnig auka tekjur til muna.