Tap Eikar fasteignafélags hf. fyrir á síðasta ári nam 31,6 milljón króna. Velta var 1.798,5 milljónir króna, sem er 24% aukning frá fyrra ári. EBITDA var 1.292,3 milljónir króna, sem er 24% aukning. Arðsemi eigin fjár var neikvæð um 1,25%.

Í tilkynningu til Kauphallar kemur fram að heildareignir félagsins voru að andvirði 20,252 milljarðar króna. Víkjandi fjármagn, þ.e. eigið fé, víkjandi lán og tekjuskattsskuldbindingar, var að andvirði 3,353 milljarðar króna. Hlutfall víkjandi fjármagns var 16,6%. Handbært fé frá rekstri var 683,8 milljónir króna.

Starfsemi Eikar fasteignafélags hf. er fyrst og fremst falin í útleigu húsnæðis og fjárhagsleg áhætta félagsins því aðallega þar, ásamt áhættu vegna fjármagnskostnaðar og gengisbreytinga. Í tilkynningu kemur fram að rekstur félagsins gekk vel árið 2008 þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði þar sem verð á atvinnuhúsnæði hefur fallið og seljanleiki er mjög lítill.

Eik fasteignafélag hf. er eitt stærsta fasteignafélag á landinu og sérhæfir sig í leigu á atvinnuhúsnæði, aðallega á höfuðborgarsvæðinu.