Ávöxtunarkrafa á tveggja ára þýsk ríkisskuldabréf er komin undir 0% og er það í fyrsta sinn sem það gerist frá maímánuði 2013.

Þegar þetta er skrifað er krafan -0.01%, sem þýðir að fjárfestir sem kaupir bréfin nú og heldur þeim fram á gjalddaga fær minna í sinn hlut en hann greiddi fyrir bréfin.

Í frétt Bloomberg segir að ástæðurnar séu nokkrar. Þar á meðal sé ákvörðun evrópska seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum. Þá hafi fjárfestar auknar áhyggjur af ástandinu í Úkraínu og af tölum sem bendi til þess að búast megi við hægari hagvexti á evrusvæðinu.