Seðlabankinn í Sviss hefur ákveðið að leggja neikvæða vexti á innlánsreikningum til þess að koma í veg fyrir frekari styrkingu svissneska frankans. Gengi frankans hefur hækkað verulega frá fjármálakrísunni 2008 og ætlar bankinn nú að koma í veg fyrir að gengi hans hækki umfram 1,2 franka gagnvart evru.

Til að koma í veg fyrir enn frekari styrkingu hefur því Seðlabankinn í Sviss ákveðið að rukka 0,25 prósent vexti á innlánsreikningum hjá bönkum og fjármálastofnunum yfir ákveðið hámarksmagn.

„Neikvæðir vextir gera það að verkum að það verður ekki jafn aðlaðandi að halda í fjárfestingar í svissneskum frönkum og þannig verður hægt að halda genginu viðráðanlegu,“ segir í tilkynningu frá Seðlabankanum í Sviss.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times.