Pólska farsímatæknifyrirtækið Netia Holdings tilkynnti í gær að heildartap samstæðunnar á öðrum ársfjórðungi hefði numið 298,6 milljónum króna, en á sama tíma í fyrra var hagnaður fyrirtækisins 590 milljónir króna, segir í frétt Dow Jones.

Greiningaraðilar sem Dow Jones ræddi við höfðu spáð 272,4 milljón króna tapi.

Netia segir að stofnkostnaður vegna þráðlausra netkerfa þar í landi sem og samdráttur í aðaltekjulindum fyrirtækisins séu ástæður tapsins, segir í fréttinni.

Heildartekjur fyrirtækisins lækkuðu um 9,3% úr 5,3 milljörðum í 4,8 milljarða, en Netia hafði sent út viðvörun fjórtánda júlí síðastliðinn, þar sem sagt var að tekjur fyrirtækisins myndu lækka um 9-10% á öðrum ársfjórðungi.

Netia segir að hagnaður fyrirtækisins muni aftur aukast á síðari hluta árs, en þá mun fyrirtækið opna háhraðastöðvar í 20 borgum og þá munu einnig byrja að streyma inn tekjur frá P4 fyrirtækinu sem keyrir á þriðju kynslóðar farsímatækni, en Netia á 30% hlut í P4.

Íslenska fjárfestingafélagið Novator er stærsti hluthafi Netia og á 25,2% hlut.