Neyðarlínan hefur samið við Vodafone um að fyrirtækið veiti Neyðarlínunni heildarfjarskiptaþjónustu næstu þrjú árin. Samningur þess efnis var handsalaður á hálendi Íslands, samhliða því að samgönguráðherra opnaði fyrir  GSM þjónustu Vodafone á Kili.

„Okkar fjarskiptaþarfir eru margvíslegar og eftir ítarlega úttekt er það niðurstaðan, að hagsmunir okkar og þeirra sem nýta sér þjónustu Tetra kerfsins séu best tryggðir með þessum nýja samningi," segir Dagný Halldórsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone, segir það mikla viðurkenningu að Neyðarlínan hafi valið að færa sín símaviðskipti til Vodafone. „Öryggismál eru okkur mjög hugleikin og því er það sérstakt ánægjuefni að Neyðarlínan skuli vera komin í viðskipti við okkur. Við höfum lagt ríka áherslu á áreiðanleika þjónustunnar og bæði tæknilegir mælikvarðar og mælingar  á ánægju viðskiptavina sýna að við höfum náð góðum árangri.”