Hæstaréttardómur í máli tveggja einstaklinga gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hefur valdið skjálfta meðal íslenskra bankamanna, en hann felur í sér að kostnaður bankanna vegna ólöglegra gjaldeyrislána og gengistryggðra lána verður enn meiri en talið hafði verið hingað til.

Boðað hefur verið til fundar í Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um málið og hófst hann klukkan fimm. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu þangað mæta fulltrúar FME og annarra stofnana og fyrirtækja sem málið varðar. Enn er ekki vitað upp á hár hvert tap bankanna verður vegna þessa dóms Hæstaréttar.

Málið snýst ekki um að bankarnir hafi ekki farið að lögum, því þeir fóru allir að lögum sem sett voru árið 2010. Þau fólu í sér að ólöglegum lánum væri breytt í krónulán á ákveðnum viðmiðunarvöxtum, sem ætti að reikna afturvirkt á höfuðstólinn. Þessir vextir voru almennt hærri en þeir vextir sem höfðu verið á hinum ólöglegu lánum. Þessi afturvirkni reikningur var að mati Hæstaréttar brot gegn ákvæði stjórnarskrárinnar sem leggur bann við afturvirkri lagasetningu.