Neytendastofa hefur birt ákvörðun um að BT hafi brotið gegn ákvæðum reglna um verðupplýsingar og lögum um vernd gegn óréttmætum viðskiptaháttum með því að auglýsa vaxtalaus BT-lán án þess að fram komi í auglýsingunni hver sé heildargreiðsla lánsins.

Í ákvörðun Neytendastofu er tekið dæmi af bæklingi BT með fyrirsögninni „Vaxtalaus veisla“, þar sem auglýst sé til sölu Panasonic 32" LCD sjónvarp á kr. 99.999 við staðgreiðslu eða með láni með 0% vöxtum með afborgunum að fjárhæð kr. 9.331 á mánuði í tólf mánuði. Sé afborgunarverð lánsins framreiknað er verð sjónvarpsins kr. 111.972.

Tekið er fram við auglýsinguna að vextir séu 0% en á annarri blaðsíðu bæklingsins sagði að inni í útreikningi mánaðarlegra greiðslna sé 5,8% skuldaálag, 3% lántökugjald og 250 kr. mánaðarlegur færslukostnaður.

Niðurstaða Neytendastofu er að með þessari framsetningu hafi BT brotið gegn 4. grein reglna númer 21/1995 og 6. grein laga nr. 57/2005. Þar sem heildarverð vörunnar ef greitt er með BT-láni er ekki birt sé auglýsingin villandi. Því bannar Neytendastofa BT að auglýsa lán með 0% vöxtum án þess að birta heildargreiðslu lánsins.