Jarðboranir hafa sagt upp nítján starfsmönnum. Mönnunum var sagt upp fyrir mánaðamót vegna verkefnaleysis og taka uppsagnirnar gildi fyrsta maí. Í frétt Ríkisútvarpsins er haft eftir Baldvini Þorsteinssyni, forstjóra Jarðborana, að starfsmennirnir nítján, allt karlmenn, vinni á bornum Þór.

Borverkefni fyrir HS orku á Suðurnesjum lýkur í vor og óvíst er með framhaldið. Baldvin segir að vonast sé til að framhald verði á borununum og verið sé að leita að nýjum verkefnum. Um hundrað og fjörutíu manns vinna hjá Jarðborunum, þar af um þriðjungur á Íslandi.