Í stað þess að vera opið allan sólarhringinn verður opnunartími allra verslana Nóatúns nú frá kl. 08.00 til miðnættis alla daga vikunnar.

Þetta kemur fram á vef Nóatúnsverslananna en verslanirnar hafa undanfarin tvö ár verið opnar allan sólarhringinn. Þessi breyting tók gildi í gær.

Fram kemur að launakostnaður hafi aukist til muna vegna nýrra kjarasamninga frá því að ákvörðun um næturopnun var tekin auk þess sem frekari hækkanir séu framundan sem snúa að vinnutíma að næturlagi.

„Ákvörðun Nóatúns um að ráðast í sólarhringsopnun í marsmánuði 2010 byggðist á þeirri meginforsendu að hinn langi opnunartími leiddi ekki til verðlagshækkana fyrir viðskiptavini Nóatúns,“ segir á vef verslananna og því er bætt við að sú forsenda hafi haldið hingað til en vegna þeirra breytinga sem séu í farvatninu telji forsvarsmenn Nóatúns sér ekki annað fært en að bregðast við með þessum hætti.