Ákveðið hefur því verið að efna til söfnunar til stuðnings byggingar minnisvarða um samþykkt Icesave-frumvarpsins. Nöfn þeirra þingmanna sem greiða atkvæði með frumvarpinu verða þannig greypt í stein um langa framtíð, sem og þeirra sem sitja hjá við atkvæðagreiðsluna eða koma sér undan þátttöku í henni.

Þetta kemur fram á vefsíðunni iceslave.is en þar kemur fram að nú stefni allt í að frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave verði samþykkt af Alþingi og undirritað af forseta Íslands. Þá kemur fram að jafnframt verður nafn forseta Íslands, sem undirritar lögin „gegn eigin mælikvörðum“, á minnisvarðanum.

Að söfnuninni stendur Sigríður Andersen, lögmaður og fyrrv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Þar sem baráttan gegn Icesave virðist nú vera töpuð er með þessu reynt að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig,“ segir á vef iceslave.is.

„Minnisvarðinn verður áminning til framtíðarþingmanna um að verk þeirra gleymist ef til vill ekki. Sérstaklega ætti hann að vera þeim áminning um að fylgja sannfæringu sinni og víkja sér til að mynda ekki undan ábyrgð með hjásetu, fjarveru eða orlofi þegar afar mikilvæg mál koma til atkvæðagreiðslu.“

Fram kemur að til standi að finna góðan listamann til að skapa steininn fyrir hóflegt fé og óskað verður eftir stað fyrir minnisvarðann í miðborg Reykjavíkur.

Sjá nánar á vef Iceslave