Stærstu fjármálafyrirtæki landsins hafa svarað fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins (FME) vegna óvissu um bókfært virði gengislána í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. Nokkur minni fjármálafyrirtæki fengu lengri frest, að sögn Sigurðar Valgeirssonar, upplýsingafulltrúa FME. Upphaflegur frestur rann út 15. mars. Fyrirtækin voru beðin um að greina frá áhrifum dóms miðað við fjórar sviðsmyndir, sem FME sendi. Þann 16. mars tilkynnti FME að fyrra mat, um að dómurinn ógni ekki fjármálastöðugleika, standi. Sigurður segir að við framkvæmd endurreiknings lánastofnana hafi komið upp ýmis álitamál sem þarf að skera úr um, og FME muni birta endanlegan útreikning um áhrif dómsins þegar niðurstaða liggur fyrir.