Stjórnvöld í Noregi hafa nú til skoðunar að takmarka útleigu á húsnæði í íbúðahverfum á deilivefjum á borð við Airbnb við 90 daga eins og gert er á Íslandi. Ástæðan er sögð vera vilji stjórnvalda til að draga úr því álagi og áreiti sem nágrannar slíkra leigusala verða fyrir þegar húsnæði í íbúðahverfi er í raun leigt út eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða.

Tillagan er opin til umsagnar almennings fram í ágúst. Í tillögunni er meðal annars vakin athygli á að ef af breytingunni verður geti fólk engu að síður leigt íbúð sína út í 45 af 52 helgum ársins. Reglurnar eiga ekki að taka til tilvika þar sem eigendur húsnæðis leigja aðeins frá sér hluta húsnæðis síns og heldur ekki sé leigan endurgjaldslaus. Þá á í vissum tilvikum að vera mögulegt að leigja íbúð í allt að 120 daga.

Með reglunum væri þeim sem búa í búseturéttaríbúðum veittur rýmri réttur til að leigja út húsnæði sitt í skamman tíma. Stefnt er að því að kynna lagafrumvarp um efnið fyrir jól.