Smjörsala í Noregi fer stöðugt vaxandi. Norska mjólkursamsalan Tine seldi 3900 tonn af smjöri á fyrstu sex mánuðum þessa árs samanborið við 3400 tonn á sama tíma á síðasta ári. Það jafngildir 13% söluaukningu. Þá var mjólkurframleiðsla Tine um 762,7 milljón lítrar sem jafngildir 1,02% frá sama tímabili á síðasta ári. Þetta kemur fram í norska dagblaðinu Nationen.

Eins og greint var frá á síðasta ári varð mikill smjörskortur í Noregi fyrir síðustu jól og óskuðu Norðmenn meðal annars eftir stuðningi frá Íslandi í þeim málum. Norðmenn virðast staðráðnir í að koma í veg fyrir að sami vandi endurtaki sig en Tine hefur ákveðið að flytja inn til landsins um 200 tonn af smjöri. Þá hefur mjólkurframleiðslukvóti verið aukinn um 3%.

Áformum um aukinn smjörinnflutning hefur verið harðlega mótmælt af norskum stórbóndum sem vilja heldur að framleiðslukvóti þeirra verði enn aukinn svo þeir geti svarað vaxandi eftirspurn.