Seðlabanki Noregs hækkaði fyrr í dag stýrivexti um 25 punkta – úr 5,5% í 5,75% - sem var í samræmi við spár greinenda. Í tilkynningu bankans segir að verðbólga mælist hærri en spár höfðu gert ráð fyrir og vísbendingar séu  uppi um að hún muni aukast enn frekar. Af þeim sökum sé ekki hægt að útiloka frekari stýrivaxtahækkanir. Jafnframt ítrekaði seðlabankinn mikilvægi þess að verðbólguvæntingar almennings væru sambærilegar verðbólgustiginu hverju sinni. Þessar áhyggjur skiptu meira máli heldur en niðursveifla í alþjóðahagkerfinu og hagvaxtarhorfur heima fyrir, í rökstuðningi bankans fyrir því að hækka stýrivexti.