Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian, sem jafnframt er eitt stærsta lággjaldaflugfélag í Evrópu, hefur staðfest pöntun upp á 100 Airbus A320neo flugvélar. Skrifað var undir viljayfirlýsingu í janúar sl. en nú hefur pöntunin verið staðfest eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Airbus.

Kaupverðið er ekki gefið upp en talið er að það nemi um 125 milljörðum norskra króna. Þetta er í fyrsta sinn sem Norwegian kaupir Airbus vélar þannig að félagið er þar með orðið nýjasti viðskiptavinur Airbus. Með pöntuninni verður Norwegian jafnframt einn stærsti viðskiptavinur evrópska flugvélaframleiðandans að A320neo vélum. Norwegian var stofnað árið 1993.

Norwegian flýgur innan Evrópu, til N-Afríku og Mið-Austurlanda. Félagið rekur í dag rúmlega 60 flugvélar, þarf af um 50 Boeing 737-800 og 13 Boeing 737-300. Hins vegar á Norwegian pantaðar 100 Boeing 737Max vélar (sem verður sparneytnari og bættari útgáfa af 737 vélunum) og 8 Boeing 787-8 Dreamliner vélar. Þess utan á Norwegian pantaðar 75 Boeing 737-800 vélar og nú fyrrnefndar 100 A320neo vélar. Félagið á því pantaðar rúmlega 280 vélar auk þess að eiga kauprétt á um 150 vélum til viðbótar.

A320neo vélin er byggð upp með svipuðum hætti og A320 vélin, sem er mest selda vél Airbus frá upphafi. Hins vegar verður A320neo mun sparneytnari en fyrirrennari hennar og með nýjum vængjabörðum (það sem Aibus kallar sharklet) verður flugdrægni hennar lengri en áður þekkist. Talið er að eldsneytissparnaður vélarinnar verði um 15% frá því sem nú er. Þannig á véin að fljúga allt að 950 km. lengra en eldri útgáfan. Þá á vélin að menga minna auk þess sem hún á að vera hljóðlátari en eldri útgáfan af A320.

Beoing 737-800 vél í litum Norwegian Air.
Beoing 737-800 vél í litum Norwegian Air.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Beoing 737-800 vél í litum Norwegian Air.