„Þótt það sé ákveðinn kjarni í starfinu sem felst í aðstoð við skrif á ræðum og pistlum og öðru efni þá er maður svolítið í allt í öllu hlutverki hér við að tryggja að allt gangi temmilega vel fyrir sig," segir Hersir Aron Ólafsson, nýr aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaog efnahagsráðherra.

„Svo eru samfélagsmiðlar að verða sífellt stærri hluti af lífi stjórnmálamanns svo ég verð Bjarna innan handar við að halda utan um þá og svo sem allt sem fellur til, sitja fundi, mæta niður á þing með honum og þegar það verður hægt að heimsækja fólk um landið."

Hersir Aron kemur frá Ölmu íbúðafélagi þar sem hann hefur starfað sem lögfræðingur og regluvörður, en hann hefur einnig starfað við ýmsa fjölmiðla með námi. „Ég held að flestir hafi einhverja svona Boston Legal Suits ímynd af lögfræðinni, að maður gangi um í sérsaumuðum jakkafötum og vinni við að koma með hnyttin tilsvör í réttarsal. Það er auðvitað alls ekki málið heldur snýst þetta mest um að sitja inni á skrifstofu í 12 tíma á dag og skrifa greinargerðir," segir Hersir Aron.

„Ég hef alltaf haft gaman að því að skrifa, haft áhuga á samfélagsmálum og verið með pólitískar skoðanir síðan ég var bara lítið þybbið barn svo þetta starf hentar áhuganum vel og því varð það úr að ég stökk inn í þetta á eftir Svanhildi. Síðan hef ég einfaldlega trú á stefnunni sem er rekin hérna, og mikla trú á Bjarna því það er nauðsynlegt, sérstaklega núna þar sem við siglum inn í einhverja mestu krísu sem við höfum farið í gegnum, að hafa ráðherra sem skilur hvernig efnahagskerfið virkar."

Sambýliskona Hersis Arons er Rósa Kristinsdóttir, yfirlögfræðingur Akta sjóða, en hún hefur þurft að líða fyrir að hann er annálaður hrekkjalómur. „Ég hef gert henni lífið mjög leitt undanfarin sex ár, svo hún hefur þurft að setja upp einhverjar bilaðar varnir á samfélagsmiðlana hjá sér. Hún svarar alveg fyrir sig, en er almennt góðhjartaðri en ég svo hún gengur ekkert rosalega langt í því. Ég treysti hins vegar á að Bjarni svari rækilega á móti þegar ég byrja," segir Hersir Aron.

„Við Rósa erum samrýmd í því að við erum mikið fyrir að hreyfa okkur, við stunduðum krossfit af kappi og svo erum við í hópi þeirra vitleysinga sem stinga sér í kaf í Nauthólsvík í núll gráðum í desember. Þegar maður er í annasömu starfi þar sem verið er að kvabba í manni allan daginn þá núllstillist hausinn einhvern veginn algerlega við að fara ofan í kuldann og allar áhyggjur dagsins hverfa, því þá er ekki hægt að hugsa um neitt annað en anda inn og út í nokkrar mínútur."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .