Ríki með lága skatta og lítil umsvif eru betur til þess fallinn að auka velferðarþjónustu og njóta frekari hagvaxtar. Þetta segir í skýrslu bresku hugveitunnar Centre for Policy Studies sem birtist á fréttavef BBC.

Þá kemur einnig fram að í þeim ríkjum sem ríkisvald er lítið (e. slim governments) hafa skapað fleiri störf og tekjujöfnuður ekki aukist ólíkt því sem gerist hjá í ríkjum með meira ríkisvald (e. big governments).

Skýrslan, sem unnin er fyrir Alþjóðabankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn byggir á gögnum frá 20 ríkjum og er horft til síðustu 10 ára.

„Þetta sýnir okkur að sú fullyrðing um að þróuð ríki „hafi ekki svigrúm“ til að lækka skatta stenst ekki,“ segir Jill Kirby, framkvæmdastjóri Centre for Policy Studies.

Skýrslan ber nafnið Stærra, ekki betra? og er einn af höfundum hennar Keith Marsden, sem áður hefur starfað sem efnahagsráðgjafi meðal annars hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

„Niðurstöður skýrslunnar hafna því að lægri skattar orsaki niðurskurð í velferðarþjónustu eins og svo oft er haldið fram,“ sagði Marsden við kynningu hennar í gærdag. Þá sagði hann ráðlagt að breska ríkisstjórnin drægi um umsvifum sínum en samkvæmt skýrslunni eru heildarútgjöld breska ríkisins 42% af þjóðarframleiðslu.

Í skýrslu hugveitunnar kemur fram að því minna ríkisvald sem er því líklegri séu ríkin til að auka þjóðarframleiðslu.  Þannig hefur þjóðarframleiðsla á mann aukist um 5,4% að meðaltali á árunum 1999 – 2008 í slíkum ríkjum, samanborið við 2,1% aukningu hjá fyrirferðameiri ríkisstjórnum á sama tíma. Þá fylgir, samkvæmt skýrslunni minna atvinnuleysi litlu ríkisvaldi.

Þá kemur einnig fram að þar sem skattar eru lægri er meira eytt í varnarviðbúnað og réttarkerfi en í ríkjum þar sem skattar eru hærri.

Hægt er að nálgast útdrátt úr skýrslunni hér.