Að sögn Vilhjálms Þorsteinssonar, stjórnarformanns Verne Holding, eru ný gjaldeyrislög ekki til þess að auðvelda uppbyggingu netþjónabúsins.

,,Þetta verkefni byggir algerlega á erlendu fjármagni og við þurfum að sjá fram á að fjárfestara í þessu geti komið inn með peninga og tekið þá svo aftur út, hvort sem það er í gegnum arð eða söluhagnað. Ef þessar ráðstafanir þýða það, að menn komist ekki út úr landinu aftur með peninga sína, þá er ljóst að þeir setja þá ekki inn.”

Vilhjálmur segir að áfram sé unnið með verkefnið á vegum Verne Holding þó atburðir undanfarinna vikna hafi vissulega tafið fyrir því. Búið er að leggja í talsverða hönnunarvinnu og þar að auki hefur verið unnið í því að ná samningum við erlenda viðskiptavini. ,,Menn keyra ekki á fulla ferð fyrr en við erum komnir með endanlega samninga. Engu að síður er áfram unnið í málinu,” sagði Vilhjálmur.

Engum samningum hefur verið lokað endanlega en að sögn Vilhjálms eru viðræður komnar mjög langt við marga aðila. Áfram sé unnið á fullu í málinu. Áætlanir félagsins gengu út á að byggja verið á næsta ári og taka það í notkun öðru hvoru megin við áramótin 2008 og 2009. ,,Í bili stendur það,” sagði Vilhjálmur.