Embætti sérstaks saksóknara er að rannsaka ný mál tengd Kaupþingi og aðgerðir þess í Lúxemborg á síðustu dögum tengjast meðal annars þeim málum.

Yfir 70 manns frá embætti sérstaks saksóknara, Serious Fraud Office (SFO) og lögreglunni í Lúxemborg framkvæmdu á þriðjudag húsleitir á fimm stöðum í Lúxemborg í tengslum við rannsóknir á mögulegum lögbrotum sem framin voru innan Kaupþings fyrir fall bankans.

Alls voru gerðar tvær húsleitir á grundvelli réttarbeiðni frá embætti sérstaks saksóknara. Sjö starfsmenn frá embættinu tóku þátt í þeim. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að önnur þeirra hafi farið fram í fyrirtæki í eigu Skúla Þorvaldssonar, stærsta einstaka skuldara Kaupþings í Lúxemborg fyrir bankahrun. Sú húsleit tengist rannsókn sérstaks saksóknara á lánum og öðrum fjármagnsfærslum til félagsins Lindsor Holdings Corporation.

Notuðu tækifærið til að leita

Hin húsleitin sem embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi fór fram í Banque Havilland, sem reistur var á rústum Kaupþings í Lúxemborg. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þar verið að leita að gögnum vegna nýrra mála sem snúa að starfsemi Kaupþings og ekki hefur verið greint frá opinberlega. Þau mál bárust inn á borð sérstaks saksóknara eftir húsleitir sem hann gerði í Lúxemborg fyrir rúmu ári.

Rannsókn málanna krafðist þess að leitað yrði gagna sem þeim tengjast í Lúxemborg. Þegar SFO ákvað að ráðast í húsleitir þar vegna rannsóknar sinnar á starfsemi Kaupþings var ákveðið að sérstakur saksóknari myndi nota tækifærið og leita á sama tíma.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.