Kauphöll Íslands hefur stofnað nýja viðurlaganefnd, en hlutverk hennar er að fara með ákvörðunarvald um viðurlög við brotum á reglum Kauphallarinnar. Ákvarðanir viðurlaganefndar verða birtar og gerðar aðgengilegar á vefsíðu Kauphallarinnar.

Viðurlaganefndin, sem skipuð er af stjórn NASDAQ OMX Iceland hf, samanstendur af þremur óháðum sérfræðingum;  Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands (formaður), Halldóri Björnssyni, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur (varaformaður) og Katrínu Ólafsdóttur, PhD í hagfræði og lektor við Háskólann í Reykjavík. Varamaður viðurlaganefndar er Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, lögfræðingur. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn.

„Það er með mikilli ánægju að við tilkynnum um stofnun viðurlaganefndar á íslenska markaðnum, en stofnun hennar er veigamikill liður í því að efla innviði hans.“, sagði Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland í tilkynningu. „Viðurlaganefndin er skipuð  fólki sem hefur víðtæka reynslu af störfum tengdum fjármálamarkaðnum og það er afar mikils virði að geta notið sérfræðikunnáttu þeirra í þessum tilgangi,“ segir hann ennfremur.

Samsvarandi nefndir starfa að lagakröfu við kauphallirnar í Svíþjóð og Finnlandi. Íslenkska viðurlaganefndin starfar skv. reglum um viðurlaganefnd NASDAQ OMX Iceland hf. sem finna má hér .