Reglur um bankaleynd eru í aðalatriðum sambærilegar hér á landi og í Danmörku, Noregi, Þýskalandi og Bretlandi. Þetta eru niðurstöður skýrslunnar Bankaleynd: lagaumhverfi og framkvæmd á Íslandi og í öðrum Evrópuríkjum , sem Dóra Guðmundsdóttir lögfræðingur vann fyrir viðskiptaráðuneytið.

Í skýrslunni, sem er dagsett 6. apríl en var birt á vef viðskiptaráðuneytisins í gær, segir að reglur um bankaleynd séu hluti gildandi réttar í öllum ríkjum Evrópu og víðar en inntak þeirra og útfærsla sé með mismunandi hætti. Markmið skýrslunnar var að bera saman lagaumhverfi og framkvæmd um bankaleynd á Íslandi annars vegar og í nokkrum ríkjum Evrópu hins vegar. Horft var sérstaklega til Danmerkur, Noregs, Bretlands og  Þýskalands og almennur samanburður einnig gerður við Sviss, Lúxemborg og Liechtenstein.

Meiri þagnarskylda í Sviss, Lúxemborg og Liechtenstein

Ótvírætt er í rétti allra ríkjanna, segir í skýrslunni, að trúnaðar- og þagnarskylda víkur fyrir upplýsingaskyldu sem byggist á lögum og almannahagsmunum, svo sem vegna fjármálaeftirlits, skattaeftirlits og réttarvörslusjónarmiða, einkum við rannsókn og rekstur sakamála. Þá segir að í  samanburði við ríki sem séu þekkt fyrir bankaleynd, svo sem Sviss, Lúxemborg og Liechtenstein, sé það túlkun á þessum undantekningum  á trúnaðar- og þagnarskyldu sem einna helst greini á milli réttarstöðunnar í þeim ríkjum og öðrum. Í þeim ríkjum sem séu þekkt fyrir ríka bankaleynd  hafi yfirvöld og dómstólar ekki fallist á að þagnarskylda víki fyrir upplýsingaskyldu í sama mæli og í löndunum fjórum sem voru sérstaklega til skoðunar.

Skattayfirvöld með ríkar heimildir hér á landi

Fram kemur að ekki sé hægt að segja að marktækur munur sé á framkvæmd á þeim sviðum þar sem trúnaðar- og þagnarskylda víki fyrir upplýsingaskyldu, svo sem á sviði skattaeftirlits, fjármálaeftirlits og réttarvörslu. Í öllum tilvikum virðist mega ganga út frá því að reglur um trúnaðar- og þagnarskyldu og undantekningar frá þeim séu skýrðar til samræmis við aðrar reglur réttarins. Í skýrslunni segir einnig að Hæstiréttur Íslands hafi játað skattayfirvöldum ríkar heimildir til mats á nauðsyn upplýsinga, hvort sem um sé að ræða tilgreinda aðila eða almennt. Í Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi sé þess hins vegar krafist að upplýsingar í tilgreindum málum séu skýrt afmarkaðar og rökstuddar.

Misjafnar heimildir til miðlunar upplýsinga á milli stofnana

Samkvæmt skýrslunni eru rýmri heimildir í dönskum, þýskum og breskum rétti en í norskum og íslenskum rétti til þess að miðla upplýsingum áfram til annarra yfirvalda og stofnana eftir því sem þurfa þykir. Í þessu sambandi má benda á að fram hefur komið að nokkrar takmarkanir hafi verið á upplýsingastreymi á milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlbankans vegna bankaleyndar.