Nýherji hefur ákveðið lækka laun allra starfsmanna félagsins og dótturfélaga hér á landi um 10%. Einnig hefur reynst nauðsynlegt að ganga nú frá starfslokum 15 starfsmanna af 550 hérlendis vegna fyrirsjáanlegs samdráttar.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu er þetta gert til að bregðast við óvissu og breyttu efnahagsumhverfi hérlendis.

Þá kemur fram í tilkynningunni að laun starfsmanna með grunnlaun, sem eru undir 300 þúsund krónur á mánuði, haldast óbreytt.

„Markmiðið með þessum aðgerðum er að vernda störf starfsmanna eins og kostur er á þeim óvissutímum sem eru framundan í íslensku efnahagslífi,“ segir í tilkynningunni.

„Fjárhagsstaða Nýherja er traust og félagið hóflega skuldsett, en fyrirsjáanlegt er að sú erfiða staða sem er í íslensku efnahagslífi geti haft áhrif á tekjur og rekstur félagsins,“ segir Þórður Sverrisson forstjóri Nýherja í tilkynningunni.

„Launakostnaður er nærri 80% af rekstrarkostnaði Nýherja og því nauðsynlegt að lækka þann kostnað. Við viljum grípa til aðgerða strax í ljósi aðstæðna.“

Þá segir Þórður að megin áhersla félagsins á næstu vikum og mánuðum felist í því að skila viðunandi afkomu í öllum félögum, renna enn styrkari stoðum undir starfsemi þeirra og um leið að verja störf starfsfólksins.

Í tilkynningunni kemur fram að laun starfsmanna lækka um 10% frá 1. febrúar 2009. Launalið í samningum starfsmanna verður sagt upp skriflega með þriggja mánaða fyrirvara.

Laun forstjóra og framkvæmdastjóra lækka um 10% strax frá 1. nóvember. Þá kann að verða rætt við einstaka starfsmenn um hvort þeir taki að sér hlutastarf til að mæta hugsanlegum samdrætti í þeirra verkefnum.