*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 6. maí 2013 11:28

Nýir eigendur taka við matvörurisunum

Gangi sala Kaupáss til framtakssjóðsins SÍA II eftir stefnir annar íslenski matvörurisinn á skömmum tíma í dreift eignarhald.

Lilja Dögg Jónsdóttir

Kaupás-keðjan, sem nú er til sölu, á um fimmtungs hlutdeild á íslenskum dagvörumarkaði ef marka má hlutdeildartölur Samkeppniseftirlitsins frá upphafi síðasta árs. Með sölu keðjunnar munu nær allar stærstu dagvöruverslanir landsins hafa skipt um hendur á árunum eftir efnahagshrunið. Þá hafa verslanir á borð við Kost, Víði og Iceland bæst í hóp dagvöruverslana og hefur markaðurinn því breyst umtalsvert á þessum skamma tíma.

Viðskiptablaðið greindi á dögunum frá fyrirhugaðri sölu hluta Norvíkurveldisins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins sýndu margir kaupunum áhuga og hefur þrálátur orðrómur verið um að Árni Pétur Jónsson, eigandi 10- 11 og hluta Iceland, hafi verið í þeim hópi. Ekki hefur fengist staðfesting á því en Árni Pétur keypti 11-11 verslanirnar úr Norvík-samstæðunni í mars í fyrra. Eins og kunnugt er á upphafsmaður „klukkuverslananna“,Eiríkur Sigurðsson, verslunina Víði.

Þá stendur Jón Gerald Sullenberger að baki Kosti og Jóhannes Jónsson, sem áður var kenndur við Bónus, ásamt Árna Pétri að baki Iceland. Þrátt fyrir miklar breytingar eru það því enn að miklu leyti sömu aðilar sem koma að matvörumarkaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.