Hátæknifyrirtækið XG Technology Inc., sem er skráð á AIM-markaðinn í London og er að hluta til í eigu íslenskra fjárfesta, hefur selt bandarískum fjárfestum hlut í félaginu. Um er að ræða fjárfestingafélagið Spartan Mullen & Cie S.A. sem er í eigu Chimay fjölskyldunnar sem er umsvifamikil í fjárfestingum í Bandaríkjunum.

Spartan Mullen & Cie S.A. kaupir 2% hlut í XG en á kauprétt á 4% í viðbót. Gengi bréfanna hefur fimmfaldast á síðustu tveimur vikum en Spartan Mullen & Cie S.A. borgar þrjá dali á hlut sem stighækkar jafnframt því sem kauprétturinn er nýttur. Fjármagnið sem kemur við þetta inn í félagið verður nýtt til þess að halda áfram þróun á vörum XG. Eftir miklar hækkanir á gengi bréfa XG út árið 2007 hefur gengið lækkað verulega. Salan núna er því mikilvægt skref fyrir félagið.