Þær Kristín Inga Jónsdóttir og Lella Erludóttir hafa verið ráðnar í markaðsdeild Póstsins en þær hafa þegar tekið til starfa. Báðar eru þær sérfræðingar í markaðsmálum en Kristín sinnir stafrænum miðlum ásamt efnissköpun og Lella sér um ritstýringu, stefnumótun og samþættingu skilaboða fyrir vef fyrirtækisins.

Kristín er með víðtæka reynslu af markaðsmálum en hún hefur meðal annars haft mikla aðkomu að markaðsherferðum og efnissköpun í fyrri störfum, þá hefur hún haft umsjón með samfélagsmiðlum og verið í viðburðarstjórnun ásamt mörgum öðrum verkefnum. Hún starfaði síðast hjá Kynnisferðum sem sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu en áður hafði hún starfað hjá WOW air sem verkefnastjóri markaðsdeildar. Kristín er með MA próf í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands ásamt BA prófi í félagsráðgjöf.

Lella hefur mikla og fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu. Síðast starfaði hún sem markaðsstjóri hjá Ferðaþjónustu bænda þar sem hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur í vef- og markaðsmálum. Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur í markaðsmálum og samskiptum hjá TripCreator og sem framkvæmdastjóri Funky Iceland svo fátt eitt sé nefnt. Lella er með yfirgripsmikla þekkingu af vefmálum og öðrum markaðsmálum og situr í stjórn Samtaka vefiðnaðarins. Hún hefur auk þess mikla reynslu af textagerð, þýðingum og prófarkalestri. Lella er með MA próf í blaða- og fréttamennsku frá Háskóla Íslands og MSc í mannauðsstjórnun frá sama skóla auk BA í sálfræði.

„Það er frábært að vera komin til liðs við Póstinn á þessum tímum og mjög margt spennandi að gerast hjá okkur. Pósturinn hefur átt mikið inni í stafrænni markaðssetningu og það er einstakt að fá að taka þátt í öllum þeim umbreytingum og úrbótum sem eru í pípunum“ segir Kristín Inga Jónsdóttir.

„Ég er rosalega spennt fyrir því að taka þátt í þessu verkefni, Pósturinn er spennandi fyrirtæki sem er að ganga í gegnum mikla umbreytingartíma. Ég hlakka mikið til að takast á við fjölbreytt verkefni og hjálpa Póstinum að vaxa of dafna.“ segir Lella Erludóttir.

„Ég er umfram allt ánægð hvað við erum að fá góðar og reyndar manneskjur til liðs við okkur með þessum ráðningum. Það er margt nýtt framundan á næstu misserum sem við hlökkum mikið til að kynna fyrir viðskiptavinum okkar. Kristín og Lella koma sterkar inn og gera öflugan hóp enn betri, ég er viss um að reynsla þeirra og þekking muni reynast okkur ómetanleg í komandi verkefnum.“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins.