Áætlað er að framkvæmdir við byggingu nýs Landspítala kosti um 61,5 milljarða króna eða 73,5 milljarða ef tækjakaupum er bætt við. Við það bætist fjármagnskostnaður upp á um 20 milljarða milljónir sem eykur heildarkostnaðinn í um 85 milljarða króna, að frádregnum tekjum sem aflað verður með sölu eigna. Er greint frá þessu í Morgunblaðinu.

Á móti kemur að færa má milljarða króna til tekna hjá ríkissjóði vegna virðisaukaskatts af verkefninu. Þetta kemur fram í greiningu á umfangi framkvæmdarinnar í fylgiskjali með frumvarpi um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Er skjalið unnið af fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Þá segir í frumvarpinu að ljóst sé „að verkefni af þessari stærðargráðu rúmast ekki innan núverandi ríkisfjármálaáætlunar, hvorki til skemmri tíma litið hvað varðar markmið um að ná afgangi á heildarafkomu ríkissjóðs né til lengri tíma litið hvað varðar markmið um að sá afgangur fari vaxandi og dugi til að lækka skuldabyrði hins opinbera umtalsvert, eða í a.m.k. 60% á innan við áratug,“ segir þar og er svo minnt á að fjármagna mætti þetta verkefni og flest önnur fjárfestingaráform ríkisins með vaxtakostnaði ríkissjóðs á síðustu árum.