Nýsköpunarsjóður tilkynnti í dag að sjóðurinn hefur ákveðið að fjárfesta í Marorku ehf sem er hátæknifyrirtæki á sviði orkustjórnunar og orkusparnaðar í sjávarútvegi og flutningum.

Hlutur sjóðsins verður um 20% og mun innkoma hans styrkja stoðir Marorku og opna félaginu nýja möguleika. Fjármagnið sem Marorka aflar með hlutafjáraukningunni verður nýtt til að efla enn frekari sókn á markaði og áframhaldandi vöruþróun. Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarsjóður verði virkur þátttakandi í að þróa Marorku næstu 3 ? 5 árin.

Í tilkynningu segir að markmið hluthafa Marorku er að byggja félagið upp sem öflugt íslenskt hátæknifyrirtæki, leiðandi á sínu sérsviði á alþjóðavísu. Stefnt er á að fyrirtækið þroskist og vaxi hratt á næstu árum,.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að vera áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Sjóðurinn hefur að leiðarljósi að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem vænta má mikils virðisauka og arðsemi af starfseminni og góðrar ávöxtunar fyrir Nýsköpunarsjóðs segir í tilkynningu.

Nýsköpunarsjóður telur að Marorka hafi á að skipa mjög öflugri liðsheild sem hafi alla burði til að byggja upp félag sem verði leiðandi í sölu á háþróuðum búnaði til orkusparnaðar í heiminum. Við skoðun á félaginu hefur m.a. vakið athygli hversu þróunarstarf hefur verið markvisst og vel hefur tekist til í upphafs skrefum í markaðssetningu og sölu. Þróunarstarfið hefur verið unnið í nánu samstarfi við íslenskar útgerðir. Sótt hefur verið um einkaleyfi og félagið hefur ISO 9001 vottun.