Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur undirritað samning um kaup á 30,6% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Transmit ehf. Markmið eigenda félagsins er að verða leiðandi á sviði hugbúnaðar fyrir ymsýslu rafræns markaðsefnis fyrirtækja.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Segir að vara Transmit sé Brand Regard . Hún geri litlum og meðalstórum fyrirtækjum kleift að tryggja að allir starfsmenn og samstarfsaðilar fyrirtækja hafi auðveldan aðgang að stafrænum markaðsgögnum, líkt kennimerkjum, bæklingum og myndum. Félagið hefur þegar hafið sölu á Brand Regard og segir í tilkynningu að öllum fyrirtækjum geti prófað kerfið sér að kostnaðarlausu í 30 daga á slóðinni www.brandregard.com.

Úr fréttatilkynningu:

Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins:

„Við erum mjög ánægð með fjárfestinguna í Transmit. Við höfum mikla trú á fyrirtækinu og teyminu á bak við Brand Regard.  Fyrir okkur sem fjárfesta er jafnframt mikill kostur að Transmit hefur þegar hafið sölustarf erlendis og náð erlendum viðskiptavinum sem staðfestir vaxtamöguleika fyrirtækisins."

Geir Freysson, framkvæmdastjóri Transmit:

„Með útflutningi á íslensku hugviti hyggst Transmit grípa nýtilkomið, viðamikið tækifæri sem hefur myndast  á alþjóðamarkaði. Fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu mun gera okkur kleift að hafa hraðar hendur í sókn sinni inn á þennan markað. Við hlökkum til samstarfsins við Nýsköpunarsjóð en aðkoma hans að fyrirtækinu er mikil viðurkenning fyrir okkur á þeim árangri sem þegar hefur náðst.“

Um Transmit ehf.

Transmit ehf er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað af Agnari Sigmarssyni, Geir Freyssyni og Finni Magnússyni.  Vara félagsins, Brand Regard hlaut silfurverðlaun í einni helstu sprotasamkeppni landsins, Gullegginu. Transmit ehf, er viðurkennt sem nýsköpunarfyrirtæki af Rannís og hefur tvisvar sinnum hlotið Frumherjastyrk úr Tækniþróunarsjóð og útflutningsstyrk frá Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Um Nýsköpunarsjóð

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ( www.nsa.is ) er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar-  og sprotafyrirtækjum. Nýsköpunarsjóður er óháður fjárfestingarsjóður í eigu íslenska ríkisins.